Morgunbladid
stjornur a snurum
September 24th, 2006
BY PETUR BLONDAL By Petur Blondal
Photographs by Mary Ellen Mark and RAX


241P-004-002
Einn dagar Mary Ellen Mark var tilnefnd til verolauna fyrir myndapátt úr Öskjuhlíðarskðla


241P-008-021
Sunditimi Nemendur Öskjuhhoarskola í sundi á mynd Mary Ellen Mark.

[PHOTOS OF MARY ELLEN MARK BY RAX NOT AVAILABLE]

Mary Ellen Mark hefur ljósmyndað fatlaða krakka í Safamýrarskóla og á Lyngási í heilan mánuð. Hún er að sýna litbrigði mannlífsins; krakkana sem stundum gleymast. Pétur Blöndal talaði við ljósmyndarann og fleiri sem að verkefninu koma.

Hárið á Mary Ellen Mark er svart, enda höfuðið framköllunarherbergi. Hægláttfas, tvær fléttur og berir fætur í opnum skóm, eiginlega minnir hún á indíána. Nema hún er alltaf með vélbúnað í höndunum, ef ekki myndavél þá farsíma. Augnablikin eru dýrmæt ljósmyndurum. Stúlka og strákur liggja fléttuð saman á Lyngási. Þegar Mary Ellen sér ljósmyndir Ellenar starfsmanns af þeim, þá stekkur hún upp á stól og byrjar að smella. Anika og Magnús haldast arm í arm og Mary Ellen kallar: Eru þau skotin? Ágústa starfsmaður hlær bara. Á veggnum eru myndir af mótorhjólum og stórt plakatmyndarinnar Superman Returns. Í næsta herbergi liggur Beinta María í fanginu á Birnu starfsmanni og potar í augað á henni; þannig tjá sumir væntumþykju sína, eða er það kannski
stríðni? Mary Ellen neyðist til að hætta þegar Anika er sótt. Eftir liggur Magnús og horfir upp í stjörnubjart loftið, þar sem stjörnur hanga á snúrum. Þannig eru stjörnurnar á þessum stað, þær skína bjart en þurfa festinguna.

Gengur inn í heiminn

Það er gaman að fylgjast með henni vinna, þetta er meiri eljan, segir Erla Gunnarsdóttir skólastjóri Safamýrarskóla. Hún kemur átta á morgnana og stendur í ströngu til fimm á daginn. Og greinilegt að hún gengur inn í þennan heim eins og ekkert sé eðlilegra. Þegar krakkarnir fara í sund þá stekkur hún ofan í til þeirra til að ljósmynda þau þar. Hún lætur sér ekki nægja að fylgjast með heldur tekur þátt í lífi þeirra. Mary Ellen Mark hefur fylgst með fötluðum krökkum í Safamýrarskóla, á Lyngási og í Öskjuhlíðarskóla í heilan mánuð og myndað þá fyrir ljósmyndasýningu í Þjóðminjasafni Íslands sem opnuð verður í september á næsta ári. Á sama tíma hefur Martin Bell eiginmaður hennar tekið upp efni fyrir heimildarmynd um líf Alexanders Pálssonar, fatlaðs stráks í Öskjuhlíðarskóla, en Martin hefur m.a. fengið óskarstilnefningu fyrir heimildarmyndina Streetwise um líf unglinga á götunni í Seattle. Mary Ellen þekkir vel til í Öskjuhlíðarskóla, því hún var tilnefnd  til verðlauna á Visa Pour l'Image-ljósmyndahátíðinni í Perpignan í Frakklandi fyrir myndaþátt frá degi í Öskjuhlíðarskóla sem birtist í Morgunblaðinu í árslok 2005. Á meðal þeirra krakka sem hún myndaði var Alexander.
-Hann er ástæðan fyrir því að ég réðist í þetta verkefni, segir hún. Eftir því sem ég kynntist honum betur rann upp fyrir mér hve mikið er í hann spunnið. Hann talar ekkert tungumál, en getur samt tjáð sig og skilningurinn er meiri en mig óraði fyrir. Hann skynjar allt og drekkur það í sig. Þegar ég geng inn á skólalóðina sér hann mig alltaf, alveg sama hversu langt er í hann, hann er með haukfrána sjón, og honum sárnar ef ég byrja ekki á að heilsa honum. Ég mun sakna Alexanders. Þannig byrjaði ég á þessu verkefni - við tengdumst strax. Og það sama gerðist þegar ég hitti Steinunni [Sigurðardóttur fatahönnuð] án þess að ég hefði hugmynd um að hún væri móðir hans. Hún og Páll [Hjaltason arkitekt] hafa hugsað einstaklega vel um hann. Þau elska hann svo mikið. Er hann ekki yndislegur, spyr hún Martin.
-Jú, hann er einstakur krakki, svarar Martin. Þannig er oft samskiptamynstrið hjá þeim, um leið og Mary Ellen hefur orðað hugsun, þá varpar hún henni sem spurningu yfir á Martin. Er það ekki, Martin?

Teikningar eftir krakka

Það er húsfyllir á opnum fyrirlestri Mary Ellen í Listaháskólanum og margir verða frá að hverfa. Hún situr við borð, flettir myndum á tjaldinu og segir sögur af sumu því sem fyrir augu ber, svo sem tólf ára vændisstúlku í Bombay og tvíburasystrunum Paulu og Paulie sem eiga sér þá ósk að deyja saman. Ég ætla að halda annan stærri fyrirlestur með nýju myndunum þegar sýningin verður opnuð í Þjóðminjasafninu, segir þessi hálfsjötuga kona, sem er einn virtasti ljósmyndari samtímans. Hún er margverðlaunuð og var um aldamótin valin áhrifamesti starfandi kvenljósmyndarinn af einu helsta ljósmyndatímariti Bandaríkjanna, American Photo. Þegar Mary Ellen Mark sekkur sér ofan í viðfangsefnin kemst ekkert annað að, sem sést vel á því að hún verður áhugalaus ef talið leiðist að öðru. Oftast snúa verkefnin að fólki sem er frábrugðið að einhverju leyti eða býr við sérstakar kringumstæður. Hún gengur þá inn í aðstæðurnar, nær trausti fólks og fylgir því eftir dögum og vikum saman. Dæmi um það eru frásagnir sem hún hefur unnið gagngert fyrir tímarit og bækur, eins og
þegar hún fylgdist í nokkrar vikur með Federico Fellini gera kvikmyndina Satyricon, dvaldi á öryggisdeild fyrir geðsjúkar konur í Oregon um nokkurra vikna skeið, fylgdist með lífinu á líknarheimili Móður Theresu í Kalkútta eða bjó meðal vændiskvenna í Bombay. Á sýningunni á Þjóðminjasafninu næsta haust verða einnig myndverk eftir nemendur Safamýrarskóla. Til tals hefur komið að sýningin fari víðar með UNICEF, en það er enn á hugmyndastigi. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður er formaður fulltrúaráðs UNICEF og segist hafa lýst hugmyndinni á stjórnarfundi og talað um hvað þetta væru frábærir krakkar, hvert með sínu móti. Ég sagðist vilja bæta myndum þeirra í bókina. Þar á meðal væru stórkostlegar teikningar eftir stúlku sem hefði unnið til verðlauna í samkeppni barna, ekki einungis fatlaðra. Þá spurði Eiður Guðnason, sem einnig á sæti í stjórninni: "Manstu hvað hún heitir?" Ég svaraði: "Lára Lilja." Þá sagði hann stoltur: "Þetta er dóttur-dóttir mín sem þú ert að lýsa."

Spörfugl og smali

Þegar blaðamann ber að garði í Safamýrarskóla er Mary Ellen Mark að mynda Önnu Sóleyju sem situr í fanginu á starfsmanni og raular hip hop lag. Í rúminu fær Karolis púst og kallar Mary Ellen litla drenginn "spörfuglinn." Hún nefnir krakkana gjarnan á lýsandi hátt. Ef til vill til að komast nær þeim. Yfir í Lyngási sitja Halli og Pétur í sófanum. Þeir eru bestu vinir, segir hún. Úr hátalaranum ómar hip hop í flutningi 50 Cent. Halli stendur upp, gengur til blaðamanns, grípur hönd hans og stígur í takt við sveifluna. Og þó að hann setjist aftur helst sveiflan í búknum. Pétur sýgur puttann, sem hann gerir ekki alla jafna, en hann er óvenju spenntur þennan dag. Það eru margir framandi gestir í heimsókn. Mary Ellen er með myndavélina á lofti, en hefur þó róandi nærveru, án þess hún tali mikið þegar hún vinnur - hún tjáir sig með látbragðinu. Halli bregður á leik og gerir dýrahljóð. "Hann var smali í fyrra lífi," segir hún og brosir góðlátlega. Það kunna fleiri trikk. "Hvernig gerir töffarinn," spyr Anna starfsmaður. Pétur krossar hendur og gerir rappmerki með fingrunum. "Brostu," segir hún vinalega. Og hann brosir. "Eru þetta klíkumerki" og hvar hefur hann þá lært þau, spyr Mary Ellen. "Þetta er örugglega merki leynilegrar klíku hryðjuverkamanna sem þrífst einungis innan veggja þessa skóla, segir Martin og hlær. Pétur lætur sér fátt um finnast í rapparabuxunum sínum.
"Hann heldur að hann sé svartur, en hann er hvítur," segir Mary Ellen. "Hann á langa leið fyrir höndum," segir Martin brosandi.  Mary Ellen lítur á Martin: -Ef Pétur væri ekki fatlaður, væri hann þá ekki svalasti náungi í heiminum?

[Photo of Mary Ellen Mark by RAX not available]
[Photo Caption]: Vinir Ljósmyndarinn Mary Ellen Mark með Bjössa vini sínum úr Lyngási sem hún kallar "bangsa."

[Photo by Mary Ellen Mark not available]
[Photo Caption]: Einn dagur Mary Ellen Mark var tilnefnd til verðlauna fyrir myndaþátt úr Öskjuhlíðarskóla.

Sóley stelur senunni

Samfélagið er heillandi sem Mary Ellen Mark hefur fundið á þessum stað og allt iðar af lífi. Sóley í grænni treyju togar í fléttu á Kolbrúnu þroskaþjálfa ? það liggur vel á henni. Mary Ellen klappar og Bjössi slær sér á lær í hjólastólnum, horfir hugfanginn á hana og tennurnar gægjast út um brosandi munninn. Sóley togar aftur, að þessu sinni í hárið á sænska starfsmanninum Marie. Elberg lætur fara lítið fyrir sér; Mary Ellen kallar hann "flóttalistamanninn" af því að hann er svo "slægur". Sjálf er hún slægur myndasmiður. Jafnvel á uppstillingum er fólk ekki uppstillt. Skyndilega tekur Sóley upp á því að ganga til blaðamanns og setjast í fangið á honum. Ekki laust við að hann verði pínulítið upp með sér. Mary Ellen undrast þetta af því að Sóley hefur lítið haft sig í frammi. Það má segja að Sóley verði senuþjófur, því þennan síðasta dag beinist myndavélin að henni. Hún gengur næst til Martins sem tekur hana í fangið.
-Hversu þung er hún spyr hann undrandi. -Hún er sterkari og þyngri en hún lítur út
fyrir að vera, svarar Anna hlæjandi. Þannig er Sóley, hún velur fólk þegar hún gengur inn í herbergi og engin leið er að fá hana ofan af því. -Þetta er ákveðin stúlka, segir Erla skólastjóri. Fyrir fjórum árum gat hún ekki gengið sjálf. Hún var í stöðugri gönguþjálfun, án þess að við vissum hvort það skilaði árangri. En allt í einu sleppti hún okkur, gekk allan ganginn sjálf og aftur til baka. Við stóðum bara og horfðum á. Þetta var eins og kraftaverk eftir öll þessi ár. En það er dæmigert fyrir hana. Þegar hún er tilbúin, þá gerir hún það með stæl.  Mary Ellen Mark reynir að fá Bjössa til að horfa í myndavél Ragnars Axelssonar ljósmyndara, en það gengur illa af því að hann vill bara horfa á hana. Hún kallar Bjössa "bangsa," dreng sem getur sagt ýmislegt, svo sem já, nei og hvað ertu að gera. -Bangsi verður stundum dapur, segir Mary Ellen. Ég held að hann viti að hann er frábrugðinn og vilji geta það sama og aðrir. Ragna Sif situr í hjólastólnum hinumegin í herberginu með töfrakassa og hringir, óljóst hvert, þó að mynd á kassanum af Hildi Völu gefi ákveðna vísbendingu. Halli er uppgefinn, enda deginum á Lyngási að ljúka. Hann er alltaf fínn í tauinu, setur á sig rakspíra og er bráðmyndarlegur. Leitun að sextán ára strákum sem eru jafn vel til hafðir. Sóley er sest og leikur sér með gula miða. Hana vantar aðeins penna, þá væri hún blaðamaður á grænni treyju.  -Þú komst mér á óvart í dag, sýndir á þér nýja hlið, segir Mary Ellen ljúflega við hana, svo lítur hún á blaðamann og bætir við:  -Við eigum að bera virðingu fyrir þessum krökkum, sem eru iðulega hamingjusöm og ánægð, þrátt fyrir fötlunina. Alma og Pétur hafa fléttað saman fæturna í næsta herbergi og knúsast. Alma er með stutt hár í blárri peysu. -Eins og fallegur strákur, segir Mary Ellen. Svo stendur Alma upp og röltir í næsta herbergi sönglandi lag úr Grease; hún getur sungið án þess að hreyfa varirnar -eins og búktalari. -Allir þessir hæfileikar, segir Mary Ellen og dæsir.

Fatlaðir eru einstaklingar

Fjölskylda stendur þétt saman við Laugalæk. Augnaráð táninganna er dreymið. Mary Ellen myndar og Martin sér um lýsinguna. Honum verður litið upp í laxárbláan himininn og segir: -Við ættum að vera að veiða núna. Hann áttar sig ekki á því að Mary Ellen er að veiða, nostrar við myndatökuna eins og veiðimaður á árbakka, fær fjölskylduna til að bíta á agnið og háfar hana inn á polaroid-mynd.  -One, two, smile, kallar strákur sem hjólar framhjá og stelpurnar sem hjóla með honum skríkja af aðdáun. Um kvöldið heldur Margrét Hallgrímsdóttir matarboð fyrir Mary Ellen og Martin, en hún hefur fylgst náið með framgangi verkefnisins og segir mikilvægt að opna safnið fyrir straumum samfélagsins, þannig að það snerti við fólki og kalli eftir viðbrögðum. -Sumum kann að finnast undarlegt að Þjóðminjasafnið snerti á eldfimum málum, en við teljum nauðsynlegt að endurspegla samfélagið og opna augu fólks fyrir því sem þar gerist. Það er hollt fyrir fólk að velta fyrir sér aðstæðum og lífi fatlaðra barna á Íslandi, sem öll eru sérstök, hvert á sinn hátt, eins og öll börn. Ég held að ljósmyndirnar og heimildarmyndin eigi eftir að vekja fólk til umhugsunar um það og þetta er liður í markmiðum safnsins um aðgengi fyrir alla. Og hún er hrifin af vinnuaðferðum Mary Ellen Mark.

[Photo of Martin Bell by RAX not available]
[Photo Caption]: Heimildarmynd Martin Bell vinnur að heimildarmynd um Alexander og lífið í Öskjuhlíðarskóla.

-Hún nær ótrúlegu sambandi við fötluðu börnin sem persónur, lítur ekki undan og skyggnist á bakvið. Hún er næm á fólk, góður mannþekkjari og með ríka mannúð. Og hefur sérhæft sig í umhverfi sem blasir ekki við, þó að það sé fyrir augunum á okkur. 

Skilningur á mörgum víddum

Mary Ellen Mark segist undrandi á því hversu ljúfir í viðmóti starfsmenn Safamýrarskóla og Lyngáss séu.
-Ég kynntist því þegar ég myndaði á stofnun í Oregon fyrir konur sem áttu við geðræn vandamál að stríða að sumir starfsmenn unnu þar vegna þess að þá skorti sjálfstraust og vildu komast í valdaaðstöðu. En ég hef á tilfinningunni að aðeins afburða fólk komi til álita sem starfsmenn í Safamýrarskóla og á Lyngási. Ég hef líka myndað í Öskjuhlíðarskóla og markið er sett hátt á þessum stöðum. Það er stöðugt verið að örva krakkana, ekki síst í Safamýrarskóla og á Lyngási þar sem þeir þurfa meira á því að halda. Þar er hópurinn smærri og nándin meiri, enda nálægt því að vera einn starfsmaður á hvern krakka og sumir hafa jafnvel unnið með þeim árum saman. Mary Ellen Mark hefur áður myndað börn á líknarheimili Móður Theresu í Kalkútta og segir starfsandann svipaðan þar.
-Þá á ég ekki við hvað fjármuni snertir, því þar var mikil fátækt, heldur ástúð og umhyggju. Ég finn líka sterkt að starfsmenn og aðstandendur blygðast sín ekki fyrir börnin eins og maður hefur fundið sums staðar, heldur njóta þess að vera með þeim, kynnast persónuleika þeirra og hversu létt þau eru í sér. -Stoltið leynir sér ekki!  Margrét skýtur inn í:
-Eiður sagði einmitt á stjórnarfundi UNICEF að móðir eins barnsins hefði verið spurð hvort þetta væri ekki mikil byrði. "Þetta er ekki
byrði heldur guðs gjöf," svaraði hún.
-Steinunn segir þetta líka, bætir Martin við.
-Ég get sagt litla sögu sem styður þetta, segir Mary Ellen. Ein stúlkan er óskaplega andlitsfríð og þegar ég hafði orð á því við móður hennar að hún væri með augu dóttur sinnar, þá svaraði hún: "Nei, hennar eru miklu fallegri." Það réði miklu um verkefnavalið að Mary Ellen Mark langaði til að takast á við þá áskorun að ná að kynnast krökkunum.
-Þeir eru svo djúphyggnir að það tekur tíma að átta sig á þeim og þess vegna er hætta á að fólk vanmeti þá. En svo rennur það upp fyrir manni hvað skilningur þeirra er á mörgum víddum. Og maður má gæta sín að særa ekki tilfinningar þeirra, eins og sást þegar Sóley lét til sín taka: "Hvað
um mig?" Ég hafði ekki veitt henni sömu athygli og hinum krökkunum.

Ljósmyndir grípa augnablikið

Í Öskjuhlíðarskóla eru krakkarnir farnir að þekkja Mary Ellen og sumir heilsa henni með nafni.  -Ein stúlkan stillti sér upp við hliðið að eigin frumkvæði og vildi að ég tæki myndir af sér. Þegar ég heimsótti bekkinn hennar þekkti hún mig ekki aftur, en um leið og hún sá polaroid-myndavélina í frímínútum, þá ruddist hún efst í rennibrautina og stillti sér upp þar. Sá sem vildi komast upp á eftir henni varð alveg brjálaður, en hún hreyfði sig hvergi. Martin Bell hefur verið við tökur í Öskjuhlíðarskóla undanfarinn mánuð og því vaknar spurning hvort munur sé á efnistökum ljósmyndara og kvikmyndatökumanns.
-Já, það er mikill munur, segir Mary Ellen. Ljósmyndir geta ekki reitt sig á sögu viðfangsefnisins heldur verða að vera sjálfstæðar, hver ein og einasta. Sagan getur ekki skipt máli fyrr en á ljósmyndasýningu eða í bók, sem er gallerí í sjálfu sér. Kvikmyndatökuvél eru allir vegir færir, en sumt skilar sér ekki á ljósmynd, eins og strákurinn í Öskjuhlíðarskóla sem getur snúið hlutum á fingrinum á sér eða strákurinn sem brosti í nudd- herberginu þegar lyktin af nuddolíunni barst að vitum hans.
-En frábærar ljósmyndir grípa augnablikið og það er andstætt eðli kvikmyndar, segir Martin. Þess vegna tekst ljósmyndurum oft ekki að flytja sig yfir í kvikmyndir, af því að þeir eru alltaf að leita að augnablikinu. Í kvikmyndum er augnablikið ekki eitt heldur samsett úr mörgum myndskeiðum.
-Martin fann endi á heimildarmyndina í dag, segir Mary Ellen hróðug. -Það getur verið, segir hann varfærinn. Ég á eftir að klippa atriðið, en krakkarnir voru að planta trjám. Veðrið var ömurlegt þegar lagt var af stað úr bænum og ég spurði hvort þau ætluðu að fresta ferðinni, en það var af og frá, -þessir harðgeru Íslendingar. Og þegar við komum á áfangastað var veðrið dásamlegt og athöfnin táknræn og falleg.

Krakkinn með trukkana

Daginn eftir er Ólafur B. Ólafsson tónmenntakennari að spila snákalagið í Öskjuhlíðarskóla og Martin Bell eltir snákinn með myndavélinni. Krakkarnir stýra snáknum, Alexander fremstur í hjólastólnum og Guðlaugur ýtir honum áfram. Hann er nefndur "guðfaðirinn", því hann er alltaf að gera öðrum greiða, s.s. opna dyrnar eða ná í grátþurrku. Og allir dagar hefjast á því að hann faðmar Alexander að sér þegar krakkarnir mæta í skólann.
-Flestir óttast tilveru þessara krakka og líta undan, segir Martin. En ég vona að heimildarmyndin verði til þess að færa krakkana skrefi nær því að vera manneskjur í huga folks og auki skilning á þeirra aðstæðum. Geitungur blandar sér í leikinn og gerir atlögu að Ólafi, sem tekst að ná honum með því að smella saman höndum, og geitungurinn dettur á gólfið.
-Vill einhver ábót, segir hann og brosir. Svo útdeilir hann hljóðfærum, setur Atla við trommurnar og segir:
-Þá er Tommy Lee mættur! Allt gengur sinn vangagang, þó að stundum verði óvæntar uppákomur, eins og Mary Ellen kynntist:
-Einn strákurinn heldur á tveim trukkum hvert sem hann fer og einhvern veginn fékk hann þá flugu í höfuðið að ég vildi stela þeim af honum, segir hún og hlær.
-Þú ætlaðir líka að gera það, segir Martin stríðinn.
-Alltaf þegar hann sér mig hleypur hann í felur, heldur Mary Ellen áfram.
-Ég vildi að hann væri með spjallsíðu, segir Martin. Þá stæði þar: "Hún kom aftur í dag - að leita að
trukkunum mínum."

[Photo by Mary Ellen Mark not available]
[Photo Caption]: Sundtími Nemendur Öskjuhlíðarskóla í sundi á mynd Mary Ellen Mark.

[Back page]

Stoltið leynir sér ekki

LJÓSMYNDARINN Mary Ellen Mark hefur fylgst með fötluðum krökkum í Safamýrarskóla, á Lyngási og í Öskjuhlíðarskóla í heilan mánuð og myndað þá fyrir ljósmyndasýningu á Þjóðminjasafni Íslands sem opnuð verður í september á næsta ári. Þá er eiginmaður hennar Martin Bell að vinna að heimildarmynd um líf Alexanders Pálssonar í Öskjuhlíðarskóla.  Mary Ellen segir markið sett hátt á þessum stöðum og þykir ástúðin þar svipuð og á líknarstofnun móður Theresu í Kalkútta. "Ég finn líka sterkt að starfsmenn og aðstandendur blygðast sín ekki fyrir börnin eins og maður hefur fundið sums staðar, heldur njóta þess að vera með þeim og kynnast persónuleika þeirra."

[Photo by /RAX not available]
[Photo Caption]: Vinir Ljósmyndarinn Mary Ellen Mark á Lyngási með vinum sínum Halla og Pétri.


END